Facebook pixelSkilmálar Rafmyntasjóðs Íslands | Mintum

Skilmálar Rafmyntasjóðs Íslands

Þessir skilmálar (hér eftir skilmálarnir) gilda um öll viðskipti, viðskiptasambönd og alla notkun á vefsvæðinu mintum.is (hér eftir vefsvæði félagsins eða kerfi félagsins).

Skilmálarnir gilda á milli notandans og Rafmyntasjóðs Íslands ehf. (hér eftir félagið) kt. 431121-1580. með lögheimili að Bæjarlind 4, 201 Kópavogi.

I. Um notandann

Notandinn skal vera fjárráða einstaklingur, íslenskur ríkisborgari, með íslenska kennitölu og bankareikning hjá íslenskri fjármálastofnun sem starfar skv. lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2020.

II. Stofnun aðgangs

Notandinn skal auðkenna sig með með rafrænum skilríkjum við innskráningu í vefsvæði félagsins. Kerfið styðst við innskráningarþjónustu Ísland.is. Við fyrstu innskráningu þarf notandi að samþykkja skilmála þessa með rafrænum hætti en við það stofnast aðgangur notandans.

III. Notkun aðgangs

Til þess að stunda viðskipti þarf notandinn að svara áreiðanleikakönnun sem grundvallast á skyldum félagsins samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018.

Notandinn skal tryggja að einungis hann hafi aðgang að sínu svæði á vefsvæði félagsins. Notanda er óheimilt að leyfa öðrum að nota aðganginn. Vefsvæðið býður upp á að nota aðrar auðkenningarleiðir umfram rafræna auðkenningarleið Island.is, svo sem:

  1. Skilaboð í síma.
  2. Skilaboð á netfang.
  3. Auðkenningarforrit í síma (Google authenticator eða sambærilegt).
  4. Öryggislykil (Yubikey eða sambærilegt)

Nánari umfjöllun um öryggisþætti vefsvæðisins er að finna á support.mintum.is. Ef notandi kýs að nota ekki aðra auðkenningarleiðir umfram rafrænt auðkenni eykst áhætta hans á að óviðkomandi aðili komist inn á reikning notanda. Það er ávallt á ábyrgð notandans að þriðji aðili öðlast ekki aðgang að svæði notandans.

IV. Persónuupplýsingar

Notandinn ábyrgist að persónuupplýsingar á vefsvæði félagsins séu ávallt réttar. Þá skal notandinn uppfæra persónuupplýsingar um sig eftir því sem þær taka breytingum, s.s. nafn, heimilisfang, netfang, sími o.s.frv. Félagið mun ávallt nota þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi í kerfum félagsins til að vera í samskiptum við notandann.

Með því að samþykkja skilmála þessa gefur notandinn samþykki sitt fyrir vinnslu á persónuupplýsingum sínum í starfsemi félagsins. Notandinn getur afturkallað samþykki sitt með skriflegum hætti en við það verður aðgangur notandans ennfremur óvirkur. Félagið skal ekki afhenda persónuupplýsingar notanda til þriðja aðila nema lög kveði á um það.

Félagið skal fara með upplýsingar notanda skv. lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Félagið er bundið af ákvæðum VII. kafli. Laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samkvæmt ákvæðum laga ber m.a. að nýta persónuupplýsingar notandans til að framkvæma áhættumat og eftirlit með viðskiptum notandans í þeim tilgangi að kanna hvort líkur standi til þess að aðgangur sé nýttur til peningaþvættis eða fjármögnun hryðjuverka. Þá ber félaginu að varðveita eftirfarandi gögn og upplýsingar í fimm ár:

  1. Afrit af gögnum og upplýsingum vegna áreiðanleikakönnunar.
  2. Upplýsingum um hvernig áreiðanleikakönnun var framkvæmd.
  3. Nauðsynleg fylgiskjöl og viðskiptayfirlit, sem eru nauðsynleg til að sýna fram á færslur viðskiptamanna og hægt væri að nota við meðferð máls fyrir dómi.

Um aðrar skyldur félagsins og hvernig persónuupplýsingar notandans eru nýttar er vísað til ákvæði laganna.

V. Rafkrónur (ISKT)

Vefsvæði félagsins býður notendum upp á að skipta íslenskum krónum (hér eftir ISK) yfir í rafkrónur (hér eftir ISKT) og tilbaka. Rafkrónur er tóki á Solana bálkakeðjunni. Tókinn er gefinn út með atbeina tóka forrits. Tóka forrit Solana er opinn hugbúnaður og hægt er að sjá kóða forritsins hér: https://github.com/solana-labs/solana-program-library/tree/master/token

Við hverja skiptingu er tekin þóknun samkvæmt verðskrá félagsins hverju sinni. Verðskrá félagsins má sjá á vefsvæði félagsins. Til þess að geta skipt ISK yfir ISKT þarf notandinn að eiga ISK inneign skv. vefsvæði félagsins. Notandinn getur nálgast bankaupplýsingar til að millifæra fjármuni yfir á bankareikning félagsins á vefsvæðinu. Notandinn verður að millifæra fjármuni af bankareikningi í eigin eigu. Þegar notandinn hefur millifært ISK yfir á bankareikning félagsins birtist það sem inneign notandans á vefsvæðinu en notandi getur í kjölfarið notað inneign til að skipta yfir í ISKT. Þegar notandinn hefur framkvæmt umbreytinguna getur hann fært ISKT yfir á sitt eigið Solana veski. Notandinn er ábyrgur fyrir því að skrá einungis veski í sinni eigu. Óheimilt er að nota kerfi félagsins til að færa ISKT inneign yfir á veski í eigu þriðja aðila.

Ef notandinn vill skipta ISKT yfir í ISK þarf notandinn fyrst að millifæra ISKT yfir á veski félagsins. Notandinn getur séð upplýsingar um raðnúmer innlagnarveskis félagsins á vefsvæðinu. Þegar félagið hefur móttekið ISKT á veskið birtist það sem ISKT inneign notandans á vefsvæðinu. Notandinn getur þá skipt ISKT yfir í ISK og í kjölfarið óskað eftir að ISK verði millifært á bankareikning notandans.

Framangreind skipting á milli ISK og ISKT eru viðskipti með tilheyrandi breytingum á eignarétti. Þegar notandinn skiptir úr ISK í ISKT er hann að kaupa ISKT fyrir ISK og greiðir þóknun samkvæmt verðskrá.

VI. Ábyrgð félagsins

  • Félagið ábyrgist að ávallt bjóða upp á skipti á ISK og ISKT á genginu 1:1 að frádreginni þóknun skv. verðskrá
  • Félagið ábyrgist að ávallt sé til sölu ISK fyrir allt útgefið ISKT.

VII. Grafískt viðmót við dreifistýrð kauphöll

Félagið hýsir grafískt viðmót að Serum Dex sem er dreifistýrð kauphöll sem keyrir á Solana bálkakeðjunni. Félagið hefur enga stjórn á kauphöllinni og ber enga ábyrgð á notkun notandans á kauphöllinni eða viðskiptum hans þar. Aðgangur að kauphöllinni og aðgerðir eru auðkenndar í gegnum Solana veski notandans og tengist ekki kerfum félagsins.

VIII. Tenging við kerfi félagsins.

Notandi leggur sjálfur til endabúnað og tengingu við veraldarvefinn og þann hugbúnað sem nauðsynlegur er til tengingar við kerfi félagsins. Notandi ber sjálfur fulla ábyrgð á þeim búnaði og vélbúnaði sem hann kýs að nota til að tengjast kerfum félagsins. Félagið áskilur sér rétt til að loka fyrir aðgang notanda ef tenging er af einhverjum ástæðum óeðlileg að mati félagsins.

IX. Breytingar á skilmálum.

Félagið áskilur sér allan rétt til þess að ákveða einhliða breytingu á skilmálum þessum. Gildandi skilmálar hverju sinni skulu birtir á vefsvæði félagsins. Breyting á skilmálum er kynnt notanda við næstu innskráningu eftir breytingu. Við hverja innskráningu á vefsvæði félagsins ber notanda að kynna sér gildandi skilmála og fellst í innskráningu hans samþykki á þeim.

Fallist notandi ekki á gildandi skilmála á einhverjum tímapunkti skal hann tilkynna félaginu það með skriflegum hætti en aðgangnum skal þá lokað og inneign greidd út til notandans sé hún til staðar.

X. Fyrirvari

Notandinn ábyrgist að hann sé fjárráða og hafi þekkingu um virkni bálkakeðja. Notandinn notar kerfi félagsins á eigin ábyrgð. Allar fjárfestingar í sýndarfé eru mjög áhættusamar og ávallt möguleiki á að tapa allri fjárhæðinni sem fjárfest er fyrir. Félagið býður ekki fram ráðgjöf um kaup eða sölu rafmynta. ISKT er sýndarfé og ekki opinberlega samþykktur greiðslumáti á Íslandi. Notandi ábyrgist að fara eftir lögum um notkun sína á sýndarfé hverju sinni. Notandinn ábyrgist að vera á varðbergi gagnvart tölvuþrjótum eða vefveiðum sem reyna t.d. að komast yfir einkalykla notenda að veskjum. Notandinn ábyrgist að fara ávallt beint inn á vefsvæði félagsins (https://mintum.is) en ekki í gegnum hlekk þriðja aðila eða með aðstoð leitarvélar til að forðast vefveiðar. Félagið ber enga ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda notanda, t.d. með vefveiðum eða ef þriðji maður fær upplýsingar um aðgangsorð notandans eða öryggislykla notandans.

Félagið ber enga ábyrgð á því tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í vélbúnaði eða hugbúnaði, eða af öðrum orsökum sem kunna að valda því að viðskipti eða millifærslur fari ekki fram með þeim hætti sem ætlast var til. Félagið ber enga ábyrgð á sýndarfé sem geymd eru í veskjum fyrir notendur. Þá ber félagið enga ábyrgð á því tjóni sem hlýst af vanþekkingu eða misnotkun notanda eða annars aðila, með eða án umboðs notanda. Félagið ber enga ábyrgð á þjónustu þriðja aðila, s.s. veskisþjónustur, bankaþjónustur og virkni bálkakeðja. Millifærslur inn og út úr kerfum félagsins eru óafturkræfanlegar og framkvæmdar af notandanum og án ábyrgðar félagsins.

Félagið ábyrgist ekki Solana bálkakeðjuna eða aðrar bálkakeðjur. Félagið ábyrgist ekki að bálkakeðjur starfi ótruflaðar eða villulaust eða innihaldi veikleika eða galla sem gæti valdið tapi á sýndarfé notandans.

Félagið ábyrgist ekki sérstakan uppitíma kerfisins. Félagið skal ekki verið ábyrgt fyrir tjóni, beint eða óbeint sem orsakast af rekstar truflunum á kerfum félagsins burtséð frá því hvaða ástæður liggja að baki slíkum truflunum. Félagið ber enga ábyrgð á áhrifum sem framtíðar lagabreytingar kunna að hafa á notkun bálkakeðja, útgáfu sýndarfés eða öðru sem snýr að rekstri félagsins. Félagið er ekki ábyrgt fyrir tapi á gögnum viðskiptavina (t.d. vegna tölvuárása). Ef gagnatap á sér stað skulu viðeigandi notendur látnir vita tafarlaust með upplýsingum um umfang leka eftir því sem þær eru fyrir hendi.

Félagið áskilur sér rétt til að loka eða frysta aðgang notanda án fyrirvara m.a. í eftirfarandi tilvikum:

  1. Ef upp kemur grunur um að notandi sé að misnota kerfi félagsins til svika, fjármögnunar hryðjuverka, peningaþvættis, skattsvika, eða einhverra annarra lagabrota.
  2. Félagið hefur verið upplýst um opinbera rannsókn gegn notanda m.t.t. svika, fjármögnun hryðjuverka, peningaþvættis, skattsvika, eða einhverra annarra lagabrota.
  3. Notandi hefur brotið gegn skilmálum þessum.
  4. Notandi hefur ekki lögbundin réttindi til að nota aðganginn.
  5. Færslur notanda eða notkun hans að öðru leyti er metin óeðlileg.

XI. Lagaskyldur félagsins

Félagið er tilkynningarskyldur aðili skv. lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samkvæmt ákvæðum laganna ber tilkynningarskyldum aðilum m.a. að miðla upplýsingum til þar til bæra yfirvalda ef grunur liggur um að verið sé að nýta þjónustu félagsins til peningaþvættis eða fjármögnun hryðjuverka.

Þá er félagið ennfremur bundið ákvæðum laga nr. 64/2019 um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna sem kveður á um skyldu félagsins til að frysta inneignir viðskiptamanna undir ákveðnum aðstæðum.

Notandinn ber að kynna sér skyldur tilkynningarskyldra aðila skv. framangreindum lögum.

XII. Ágreiningur

​​Rísi ágreiningur um túlkun þessara skilmála eða einhverra ákvæða í skilmálum þessum lútir ágreiningurinn íslenskum lögum og skal málið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.